Nýjast á Local Suðurnes

Fjöldi ferðamanna ofmetinn – Um 5% brottfararfarþega nota flugvöllinn eingöngu til millilendingar

Ferðamálastofa og Isavia framkvæmdu úrtakskönnun á meðal brottfararfarþega til að meta vægi þeirra sem tengja á eigin vegum í gegnum flugvöllinn en lenda í brottfarartalningum. Könnunin var framkvæmd á tímabilinu 24. júlí til 6. ágúst, í þeim tilgangi að meta vægi þessara ferðamanna í í heildarfjölda ferðamanna samkvæmt talningum.

Niðurstöður könnunar sýna að 5% brottfararfarþega nota flugvöllinn eingöngu til millilendingar, þ.e. farþegar sem tengja sjálfir á milli tveggja flugfélaga (e. self-connect). Að auki millilentu 6% farþega en nýttu tækifærið til að fara út af flugvellinum og skoða sig um, án þess að gista. Þá voru 3% brottfararfarþega erlendir ríkisborgarar sem búa á Íslandi til skemmri eða lengri tíma. Tveir síðastnefndu hóparnir hafa ávallt verið taldir með í ferðamannatalningum og má gera ráð fyrir að vægi þeirra hafi sveiflast eitthvað gegnum árin af ýmsum ástæðum, segir í tilkynningu frá Ferðamálastofu.

Ef horft er til talna um fjölda ferðamanna sem fóru frá landinu í júlí má samkvæmt þessu gera ráð fyrir að um 14 þúsund farþegar af 272 þúsundum hafi verið sjálftengifarþegar og teljist þar með ekki til ferðamanna.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að gert sé ráð fyrir að gera aðra úrtakskönnun að vetri til svo hægt sé að sjá hvort munur greinist milli árstíða.