Nýjast á Local Suðurnes

Fáir úr íslensku viðskiptaelítunni búa á Suðurnesjum

Reykjanesbær og Akureyri eru einu þéttbýliskjarnarnir sem komast á blað þegar tekinn er saman listi yfir búsetu þeirra aðila sem mest áhrif hafa í íslensku viðskiptalífi og eru bæði sveitarfélögin neðarlega á listanum.

Þetta kemur fram í greininni Elítur á Íslandi – einsleitni og innbyrðis tengsl sem birt er í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla en höfundar greinarinnar eru fjórir íslenskir fræðimenn við Háskóla Íslands. Markmið greinarinnar var að greina viðskipta og atvinnulífselítuna á Íslandi árin 2014 og 2015 út frá tengslum hennar við aðrar elítur sem og innbyrðis tengslum.

Búsetumynstur var skoðað fyrir framkvæmdastjórnir stærstu fyrirtækja á Íslandi. Tvö póstnúmer, 210 Garðabær og 170 Seltjarnarnes, skera sig greinilega frá öðrum póstnúmeruum en í þessum póstnúmerum búa 2,5 sinnum fleiri einstaklingar í viðskipta og atvinnulífselítunni en vænta hefði mátt út frá íbúafjölda.

Súlurnar tákna hlutfallið á milli raunverulegs fjölda einstaklinga í viðskipta- og atvinnulífselítunni
í hverju póstnúmeri og þess fjölda sem hefði mátt vænta ef heimilisfesti
þessara einstaklinga væri jafnt dreifð um landið. Staðir sem þar sem þéttni elítunnar er
hærri en meðaltalið hafa súlur hærri en einn, ef þéttni elítunnar er lægri en meðaltalið er
súlan lægri en einn. Einungis eru sýnd á myndinni þau póstnúmer þar sem fleiri en 20
einstaklingar í viðskipta- og atvinnulífselítunni búa.