Nýjast á Local Suðurnes

Gerðu upp íbúðir á Ásbrú fyrir stöð 2 – “Margt fólk hefur ákveðna fordóma gagnvart Ásbrú”

Mynd: Sjáskot/Stöð 2

Nýir sjónvarpsþættir í umsjón Sindra Sindrasonar, Blokk 925, sem teknir eru upp á Ásbrú, eiga að sýna fram á hvaða leiðir ungt fólk getur farið til að eignast eigin heimili án þess að þurfa að borga fimm eða sex hundruð þúsund krónur á fermetrann. Í þáttunum, sem komnir eru á dagskrá Stöðvar 2, taka tvö teymi sitthvora íbúðina í gegn frá A til Ö á ódýran, spennandi og fallegan hátt. Íbúðirnar verða svo seldar með aðstoð fasteignasala að þáttaröðinni lokinni.

Fjöldi iðnaðarmanna af Suðurnesjum komu að breytingum á íbúðunum tveimur við gerð þáttana, sem eins og nafnið gefur til kynna voru teknir upp í húsnæði 925 á Ásbrú, en tökur stóðu yfir í nokkrar vikur í sumar.

Sindri segir í samtali við Vísi að margt fólk hafi ákveðna fordóma gagnvart Ásbrú og að svæðið sé nokkuð umdeilt.

„Þess vegna er svo gaman að takast á við þetta verkefni á þessu svæði sem hefur verið svolítið umdeilt. Eins og flestir muna var í þessu hverfi herstöð frá árunum 1951 til 2006. Og frá árinu 2006 fór íbúafjöldinn bara niður í núll. En þetta hverfi hefur verið að byggjast upp og í dag búa þarna um 2.100 manns. Íbúum fer fjölgandi því þarna er hægt að fá nýtt húsnæði sem verið er að gera upp fyrir mun minni peninga heldur en gengur og gerist miðsvæðis.“

Að sögn Sindra lofar hönnun teym­anna tveggja góðu og að þáttaröðinni lokinn geti einhverjir heppnir gert góð kaup í þeim.

„Þetta verður flott en íbúðirnar tvær verða alveg brjálæðislega ólíkar. Þær fara svo á sölu og við fáum fasteignasala með okkur í lið í þáttunum sem metur þær. Fólk mun geta gert mjög góð kaup í þeim, því þær verða virkilega flottar. Sambærileg íbúð í miðbænum væri örugglega þrefalt dýrari.“