Gerir athugasemdir við vinnubrögð Vinnumálastofnunar

Vinnumálastofnun hefur, að sögn Ásmundar Friðrikssonar alþingismanns, yfirboðið leigu á Ásbrú, fyrir hönd ríkisins. Ásmundur greindi frá þessu á Alþingi á dögunum og hafði í höndunum leigusamning íbúa sem hann sagði hafa verið á leigumarkaði í fimmtán ár, en samningurinn yrði ekki framlengdur og íbúum gert að flytja út.
Í máli Ásmundar kom fram að um 30 fjölskyldur myndu missa húsnæði sitt og að yfirboð ríkisins væri til þess að koma flóttafólki og hælisleitendum í húsnæði. Morgunblaðið fjallar um málið í dag og ræðir meðal annars við Kjartan Má Kjartansson, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, sem segist hafa gert athugasemdir um að ríkið sé að yfirbjóða leigu.
„Við vitum af þessu og þykir þetta miður. Við höfum gert athugasemdir við forstjóra Vinnumálastofnunnar og fulltrúa félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytisins að ríkið sé að yfirbjóða leigu,“ sagði Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, þegar Morgunblaðið bar þetta undir hann.