Nýjast á Local Suðurnes

Álagsgreiðslur til starfsfólks skóla ekki í boði

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að greiða starfsfólki við þá skóla sem hafa lokað húsnæði vegna myglu- og rakaskemmda álagsgreiðslur, en fyrirspurn varðandi þetta var lögð fram á fundi menntaráðs sveitarfélagsins á fundi þess í ágúst. Í svari sviðsstjóra menntasviðs kemur fram að aðrar leiðir henti betur en peningagreiðslur.

Ekki kemur þó fram í svari sviðsstjóra hvaða leiðir séu færar í þessum málum.

Bókun Skúla Sigurðssonar fulltrúa grunnskólakennara frá því í ágúst:

„Ætlar Reykjanesbær að greiða starfsfólki við þá skóla sem hafa lokað húsnæði álagsgreiðslur? Hefur komið erindi frá skólastjórnendum eða kennurum um slíkt á borð fræðslustjóra eða menntaráðs?“

Svar sviðsstjóra menntasviðs:

Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um að greiða starfsfólki við þá skóla sem hafa lokað húsnæði álagsgreiðslur. Slíkt erindi var borið upp við sviðsstjóra menntasviðs sl. vor, þ.e. að starfsfólk í Myllubakkaskóla fengi eingreiðslu að upphæð 70.000 kr., og var þá vísað til þess að slíkt hefði verið gert í öðru sveitarfélagi. Því miður er álag víða í stofnunum Reykjanesbæjar vegna rakaskemmda og myglu og væri erfitt að draga línuna þar sem hún er dregin í bókun fulltrúa grunnskólakennara. Þá eru ýmsar aðrar leiðir líklega betur til þess fallnar að mæta álagi en sú sem nefnd er.