Hvessir hressilega

Í dag gengur í suðaustankalda með smá rigningu eða slyddu á sunnan- og vestanverðu landinu en mun hægara og bjartviðri norðaustan til. Á morgun nálgast kröpp og djúp lægð frá Nýfundnalandi. Hvessir þá úr austri og verður hvassast við suðuströndina, jafnvel staðbundinn stormur um kvöldið. Lítlisháttar væta víða um land en þurrt að kalla fyrir norðan. Áframhaldandi hvassir vindar og úrkomusamt fram á sunnudag þegar lægir loks og rofar til en fremur hlýtt miðað við árstíma, segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands um veðrið næstu daga.
Veðrið næstu daga samkvæmt spá veðurstofu:
fimmtudag:
Gengur austan 13-20 m/s með rigningu á S-verðu landinu, hvassast syðst og jafn vel stormur þar um kvöldið. Hiti 1 til 6 stig. Hægara og þurrt fyrir norðan og hiti kringum frostmark.
Á föstudag:
Norðaustan 13-20 m/s, hvassast á Vestfjörðum með talsverðri rigningu S- og A-lands, en annars úrkomuminna. Hiti 1 til 7 stig, mildast syðst.
Á laugardag (fyrsti vetrardagur):
Útlit fyrir norðaustanhvassviðri, jafn vel storm með talsverðri rigningu á A-helming landsins, en annars úrkomuminna og milt í veðri.
Á sunnudag:
Stíf norðaustanátt NV-til, en annars mun hægari vindar. Væta í flestum landshlutum og fremur hlýtt í veðri.
Á mánudag:
Líklega hæg norðanátt með skúrum éljum, en úrkomulítið syðra og fremur svalt veður.