Stórsigur Keflavíkur gegn Gróttu – Sveindís Jane skoraði 6 mörk

Keflavík sótti Gróttu heim á Valhúsavöll á Seltjarnarnesi í 1. deild kvenna í gær, lið Gróttu hefur átt erfitt uppdráttar í sumar og tapað sínum leikjum stórt, en liðið hafði fengið á sig 25 mörk fyrir leikinn í gær. Það var því búist við markaveislu á Seltjarnarnesi og sú varð heldur betur raunin, því áður en yfir lauk höfðu Keflvíkingar skorað 11 mörk gegn einu heimamanna.
Sveindís Jane Jónsdóttir gaf tóninn strax á fyrstu mínútu leiksins þegar hún kom Keflavíkurstúlkum í 1-0, Gróttustúlkur jöfnuðu leikinn óvænt á þeirri fimmtu, en eftir það réðu Keflvíkingar lögum og lofum á vellinum og röðuðu mörkunum inn jafnt og þétt. Keflavíkurstúlkur áttu hvorki meira né minna en 40 skot að marki, þar af 28 á rammann. Öruggur 10 marka sigur, 11-1 á Seltjarnarnesi.
Sveindís Jane skoraði sex mörk fyrir Keflavík, Anita Lind skoraði tvö og þær Amber Pennybaker, Una Margrét og Birgitta Hallgrímsdóttir sitt markið hver.
Keflavík er í þriðja sæti 1. deildarinnar með 9 stig eftir 5 leiki.