Nýjast á Local Suðurnes

Lokatónleikar Leoncie á Íslandi verða á Hard Rock Café – Flytur glænýtt lag!

Síðustu tónleikar Indversku prinsessunnar Leoncie verða haldnir á Hard Rock Café við Lækjargötu þann 26. nóvember næstkomandi. Tónleikana heldur söngkonan vegna þess að hún er að flytja af landi brott og er því um að ræða allra síðasta sénsi til að sjá þessa öflugu söngkonu á sviði.

Leoncie hefur verið hluti af íslensku tónlistarlífi síðan snemma á 9. áratugnum, fyrsta platan hennar, My Icelandic Man, kom út árið 1985 og er löngu orðin klassísk. Síðan hefur Leoncie gert fjölda platna og slegið í gegn með lögum eins og Ást á pöbbnum, Litli sjóarinn, Come On Viktor og Enginn þríkantur hér.

Á tónleikunum á Hard Rock mun söngkonan flytja glænýtt lag, þannig að hér er um að ræða viðburð sem enginn ætti að missa af.

Einnig koma fram Krakk & Spaghettí og Dr. Gunni. Tríóið Krakk & Spaghettí er skipað þremur ungum Reykvíkingum og leikur krúttrapp. Dr. Gunni mun leika lög af myndlistarsýningunni/plötunni ATVIK, sem hangir uppi á Mokka Café frá 1. til 30. nóvember. Verður þetta í eina skiptið sem lög af myndlistarsýningunni/plötunni verða leikin opinberlega.

Það er miði.is sem heldur utan um miðasöluna á tónleikana.