Nýjast á Local Suðurnes

Viðbótargjöld lögð á þá sem nota fleiri en eina sorptunnu

Viðbótarsorpgjöld verða lögð á þá aðila sem nota fleiri en eina sorptunnu, ef áform stjórnar Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja ná fram að ganga en tillaga um þetta var lögð fram á stjórnarfundi fyrirtækisins sem fram fór þann 10. september.

Álögð sorpgjöld innifela afnot af einni sorptunnu við hverja íbúð sem losuð er að meðaltali á 10 daga fresti. Við tunnutalningar á svæðinu hefur komið í ljós að nokkuð margir aðilar eru með aukatunnu án þess að fyrirtækið hafi innheimt fyrir það hjá sveitarfélögunum. Sum sveitarfélaganna, en ekki öll, eru nú þegar með þá reglu að innheimta gjald af þeim íbúðaeigendum sem eru með fleiri en eina sorptunnu.

Samningur fyrirtækisins við sorphirðuverktakann er með þeim hætti að greitt er fyrir þann fjölda sorpíláta sem losaður er hverju sinni. Málið var rætt ítarlega og samþykkir stjórnin að fela framkvæmdastjóra að undirbúa og vinna málið  áfram í samstarfi við sveitarfélögin, segir í fundargerð fyrirtækisins.

Óbreytt sorpgjöld fimmta árið í röð

Þá lagði framkvæmdastjóri fyrirtækisins  fram drög að fjárhagsáætlun fyrir árið 2016. Við gerð fjárhagsáætlunar að þessu sinni er staðfest það markmið stjórnar að halda sorpgjöldum á íbúa og íbúðaeigendur á Suðurnesjum óbreyttum frá fyrra ári og þar með, fimmta árið í röð. Tillagan gerir einnig ráð fyrir áframhaldandi óbreyttum gjöldum og fyrirkomulagi á endurvinnslustöðvum í Helguvík, Grindavík og Vogum. Rekstrarbati undanfarinna ára og gott rekstrarskipulag hefur skilað þessum góða árangri. Gert er ráð fyrir  þeirri nýbreytni, að innheimt verði viðbótarsorpgjöld vegna aðila sem nota fleiri en eina sorptunnu.

Það ætti að vekja athygli og ánægju íbúa og bæjarfulltrúa á Suðurnesjum þegar mögulegt reynist að hafa óbreytt  sorpgjöld fimm ár í röð, þrátt fyrir talsverðar hækkanir launa og verðlags. Með tilliti til hækkana á vísitölum sem lagðar eru til grundvallar við ákvörðun á gjaldskrárbreytingum  frá ársbyrjun 2012 hafa sparast tugir milljóna króna fyrir íbúa sveitarfélaganna með því að halda sorpgjöldum óbreyttum, segir í fundargerð Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf.