Nýjast á Local Suðurnes

Gera ráð fyrir 13,5 milljarða króna tekjum af hraðlest á milli FLE og Reykjavíkur

Fréttablaðið greindi frá því í gær að Fluglestin þróunarfélag ehf. vinni að því í samstarfi við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu að ljúka við skipulagsbreytingar varðandi hraðlest sem ganga á milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur.

Í nýrri, óbirtri skýrslu RRV Consulting um verkefnið, sem Vísir.is fjallar ítarlega um í dag kemur fram að verkefnið muni skila 13,5 milljarða króna tekjum árið 2024 þegar hraðlestin verður tekin í notkun, ef áætlanir ganga eftir.

Samkvæmt skýrslunni verða lestarferðir frá klukkan fimm á morgnana til klukkan eitt eftir miðnætti. Farið verður á fimmtán mínútna fresti á annatíma þegar lestin annar 1.200 farþegum á klukkustund en með 30 mínútna millibili þess utan. Lestin mun ná 250 kílómetra hraða á klukkustund og ferðatíminn verða 15 til 18 mínútur.

Reiknað er með að lægstu fargjöld gætu verið um 1.000 krónur en hæstu um 4.300 krónur. Meðalfargjaldið verði hins vegar um 3.100 krónur. Í skýrslunni er gert ráð fyrir að seldir farmiðar, samtals fram og til baka, verði 4,5 milljónir árið 2024.