Nýjast á Local Suðurnes

Frístundastyrkir: Lægstir í Vogum – Hæstir í Garði og Sandgerði

Öll sveitarfélögin á Suðurnesjum að Grindavík undanskildu bjóða upp á frístundastyrki fyrir börn og unglinga á grunnskólastigi til þátttöku í íþróttum, tómstundum eða listgreinum. Upphæðir og aldurstakmörk þessara styrkja eru mismunandi þó að í grunninn séu reglurnar þær sömu í öllum sveitarfélögunum.

Sveitarfélagið Garður og Sandgerðisbær greiða hæsta frístundastyrkinn af sveitarfélögunum á Suðurnesjum, 30.000 krónur á ári. Reykjanesbær býður uppá hvatagreiðslur, 15.000 krónur á ári til niðurgreiðslu á viðurkenndu íþrótta,- tómstunda og listgreinastarfi. Í Sveitarfélaginu Vogum er styrkupphæðin lægst eða 10.500 krónur á ári.

Í öllum sveitarfélögunum utan Sandgerðisbæjar er miðað við að styrkir séu veittir upp að 16 ára aldri. Í Sandgerði er hinsvegar hægt að nýta styrkina til 18 ára aldurs. Grindavíkurbær styrkir ekki tómstundir með beinum greiðslum til iðkenda/foreldra heldur eru æfingagjöld niðurgreidd af sveitarfélaginu þannig að fyrir hvert barn eru að hámarki greiddar 25.000 krónur á ári í æfingagjöld, sama hvaða íþrótt er um að ræða.

Mikil ánægja með fyrirkomulagið í Grindavík – Styrkja æskulýðstarf um 200 milljónir króna

Grindavíkurbær er ekki með frístundakort heldur hefur sú leið verið farin undanfarin ár að gera samninga við íþróttafélög og félagasamtök sem eru með barna- og unglingastarf. Að sögn Þorsteins Gunnarssonar sviðsstjóra frístunda- og menningaráðs eru íbúar Grindavíkur ánægðir með þetta fyrirkomulag:

“Sem dæmi er stærsti einstaki samningurinn við UMFG. Bærinn greiðir styrk til UMFG á hverju ári til þess að niðurgreiða æfingagjöld. Þetta er því í raun styrkur til foreldra. UMFG deilir þessu niður á deildirnar samkvæmt ákveðinni formúlu. UMFG rukkar auk þess 25 þ.kr. í æfingagjöld einu sinni á ári af foreldrum fyrir hvern iðkanda og hann getur þá æft hvaða íþrótt sem er, allt árið um kring. Mikil ánægja ríkir með þetta fyrirkomulag.” Segir Þorsteinn.

Grindavíkurbær metur þá samninga sem gerðir hafa verið við íþróttafélög, menningarfélög, björgunarsveitina, æskulýðsstarf kirkjunnar og fleiri aðila og gilda út árið 2018 á um 200 milljónir króna.

Reykjanesbær leggur áherslu á menntaða þjálfara og góða aðstöðu

Eins og áður sagði býður Reykjanesbær upp á svokallaðar Hvatagreiðslur að upphæð 15.000 krónur á ári fyrir börn og unglinga frá 6-16 ára. Reykjanesbær leggur einnig áherslu á að styrkja þjálfara til náms með svokölluðum þjálfarastyrk og að sögn Hafþórs Barða Birgissonar íþrótta- og tómstundafulltrúa Reykjanesbæjar er bærinn að gera vel, sé miðað við stöðuna í fjármálum sveitarfélagsins:

“Okkar styrkur er 15.000 árlega sem er bara ansi gott m.t.t. fjárhagsstöðu bæjarins sem að öllum er orðin kunn. Að auki erum við að styrkja íþróttahreyfinguna hjá okkur með styrk sem hefur verið nefndur  þjálfarastyrkur. Þannig höfum við getað tryggt að boðið sé upp á menntaða og góða þjálfara.” Sagði Hafþór.

“Að auki er aðstaðan sem Reykjanesbær er búinn á undanförnum árum og áratugum að skapa fyrir íþróttastarfið orðið mjög gott. Fimleikahúsið, Reykjaneshöllin og frábær sundaðstaða er góð áminning fyrir okkur  um það.” Sagði Hafþór.

Lægsti styrkurinn í Vogum

Sveitarfélagið Vogar eru með lægsta styrkinn af sveitarfélögunum á Suðurnesjum, sveitarfélagið greiðir 5.250 krónur tvisvar sinnum á ári í frístundastyrk eða 10.500 krónur á ári. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu stendur ekki til að breyta fyrirkomulaginu eða upphæðinni að svo stöddu.

Til samanburðar má geta þess að Seltjarnarnesbær greiðir hæsta frístundastyrkinn á landinu, 50.000 krónur á ári og á Höfn eru greiddar 40.000 krónur á ári í styrk. Meðaltal yfir frístundastyrki á landinu öllu er um 28.000 krónur samkvæmt úttekt Fréttablaðsins.