Nýjast á Local Suðurnes

Njarðvík og Grindavík eiga útileiki í Powerade-bikarnum í kvöld

Njarðvík og Grindavík verða á ferðinni í 8-liða úrslitum Powerade-bikarkeppninnar í körfuknattleik í kvöld. Njarðvíkingar leika gegn KR-ingum á heimavelli þeirra síðarnefndu og Grindvíkingar ferðast í Borgarnes þar sem þeir leika gegn Skallagrími í Fjósinu. Báðir leikirnir hefjast klukkan 19.15.

Grindvíkingar tefla fram nýjum erlendum leikmanni gegn Borgnesingum í kvöld en á dögunum var gengið frá samningi við bandaríkjamanninn “Chuck” Garcia sem er 27 ára kraftframherji, 208 cm á hæð og rétt rúm 100 kg. Skallagrímur er sem stendur í fjórða sæti 1. deildar en Grindvíkingar í 9. sæti Dominos-deildarinnar eftir brösótt gengi að undanförnu.

Njarðvíkinga bíður erfitt verkefni í vesturbænum en þeir heimsækja KR-inga í DHL-Höllina. Óljóst er hvort Njarðvíkingar kynni erlendan leikamann sinn, hinn tæplega tveggja metra háa Michael Craig til leiks í kvöld en samkvæmt félagaskiptalista KKÍ hefur ekki enn verið gengið frá félagaskiptum fyrir leikmanninn, ekki náðist í þjálfara eða stjórnarmenn Njarðvíkur við vinnslu fréttarinnar til að fá þetta staðfest.

Njarðvíkingar eru í sjötta sæti Dominos-deildarinnar eftir með fjórtán stig eftir tólf umferðir en KR-ingar í öðru sæti.