Nýjast á Local Suðurnes

Mikilvægir leikir hjá Suðurnesjaliðunum í boltanum um helgina

Keflvíkingar eiga enn tölfræðilega möguleika á að halda sér uppi í Pepsí-deildinni að því gefnu að þeir bláklæddu vinni alla sína leiki og önnur lið í fallbaráttunni tapi öllum sínum, það má því ætla að þeir mæti dýrvitlausir á Hlíðarenda í leik gegn Valsmönnum sem fram fer á sunnudaginn klukkan 17. Fyrir þá sem ekki hafa tök á að komast á leikinn þá verður hægt að hlusta á hann í beinni útsendingu á Hljóðbylgunni fm 101,2.

Grindvíkingar sem eru um þessar mundir í 7. sæti fyrstu deildar með 30 stig ferðast á Akureyri á laugardag þar sem KA-menn sem sitja í öðru sæti deildarinnar taka á móti þeim og hefst leikurinn klukkan 13.

Njarðvíkingar leika sinn síðasta heimaleik á þessu tímabíli þegar þeir taka á móti liði Sindra. Njarðvíkingar eru í bullandi fallhættu og því mikilvægt að áhorfendur mæti á völlinn styðji vel við bakið á þeim grænklæddu á laugardaginn kl. 14. Liðið er sem fyrr segir í mikilli fallhættu í 10. sæti deildarinnar með 20 stig.

Reynir Sandgerði er í baráttu um að komast upp í 2. deild, situr í þriðja sæti 3. deildar með 31 stig. Útileikur Reynis gegn KFS er síðasti leikur liðsins í sumar og ljóst að ekkert annað en sigur kemur til greina því liðið er einu stigi á eftir liðinu í öðru sæti. Leikur KFS og Reynis fer fram á laugardag og hefst klukkan 14.

Víðismenn sem hafa verið mest allt tímabilið í fallbaráttu en eru nú öruggir með að halda sæti sínu í 3. deildinni taka á móti liði KFR í Garði á laugardaginn klukkan 14.