Á annan tug skrifuðu undir vantraustyfirlýsingu á forstjóra HSS
Forstjóri Heilbrigðisstofnunnar Suðurnesja (HSS), Markús Ingólfur Eiríksson, hefur brugðist við erindi Heilbrigðisráðuneytisins og svarað þeim spurningum sem til hans var beint varðandi óánægju hluta starfsfólks stofnunarinnar með stjórnunarhætti hans.
Þetta staðfesti Margrét Erlendsdóttir, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, í svari við fyrirspurn Suðurnes.net. Ekki fengust nánari upplýsingar um málið hjá Heilbrigðisráðuneytinu, en samkvæmt heimildum snýst óánægja starfsfólks helst um ófaglega stjórnunarhætti forstjórans. Margrét staðfesti einnig að ráðuneytinu hafi borist vantraustyfirlýsing sem undirrituð var af 16 starfsmönnum HSS vegna starfa forstjórans. Á fjórða hundrað manns starfa á HSS.
Þá herma heimildir Suðurnes.net að nokkrir starfsmenn, þar á meðal sérfræðingar, hafi sagt upp störfum vegna óánægju með störf forstjórans, sem ráðinn var til starfa í febrúar síðastliðnum, en hann er með doktorspróf í endurskoðun með áherslu á stjórnarhætti fyrirtækja og starfaði áður hjá endurskoðunarfyrirtækinu Ernst & Young.