Nýjast á Local Suðurnes

Rúm 20% gjaldþrota á Suðurnesjum á síðasta ári voru í verslun

Samkvæmt tölum frá Hagstofunni voru skráð 798 gjaldþrot á landinu á síðasta ári, þar af urðu 75 fyrirtæki gjaldþrota á Suðurnesjum. þetta er töluverð fjölgun sé miðað við árið 2013 þegar 56 gjaldþrot voru skráð á svæðinu en mikil fækkun sé miðað við árin í kjölfar efnahagshrunsins, en árið 2011 urðu 107 fyrirtæki gjaldþrota á Suðurnesjum og 97 árið 2012.

Verslun hefur átt undir högg að sækja á Suðurnesjum undanfarin misseri, eins og sést meðal annars vel á hversu mikið er af lausu verslunarhúsnæði við helstu verslunargötu svæðisins, Hafnargötu. Það kemur því ekki á óvart að um 20% gjalþrota á Suðurnesjum skuli vera tengd versunarrekstri. Svipaðar tölur er að finna í flokknum byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð en það er sá flokkur sem flest gjaldþrot hafa tengst undanfarin ár.

Suðurnesjamenn duglegir að stofna til reksturs

En það er ekki bara fjöldi gjaldþrota sem vekur athygli, það gerir einnig fjöldi nýskráninga. Suðurnesjamenn voru duglegir við að stofna fyrirtæki á síðasta ári en alls voru stofnuð 101 einkahlutafélag á Suðurnesjum, langflest í Reykjanesbæ eða 75.

Af þessum rúmlega hundrað fyrirtækjum eru einungis níu sem hyggja á verslun en 15 eru skráð í flokka sem tengjast veitingarekstri og ferðaþjónustu sem er á mikilli uppleið á landinu.