Nýjast á Local Suðurnes

Aflaverðmæti á Suðurnesjum jókst í apríl

Verðmæti afla upp úr sjó nam um tíu milljörðum króna í apríl, það er 8,8% minna en í apríl 2014. Verðmæti þorsks var mest eða um 3,8 milljarðar króna sem er 7,2% samdráttur miðað við apríl í fyrra.  Verðmæti kolmunna var 35,7% minna en í sama mánuði í fyrra.

Aflaverðmæti jókst hinsvegar um rúm 7% á Suðurnesjum á umræddu tímabili og nam tæplega tveimur milljörðum króna. Sé litið á tólf mánaða tímabil frá maí 2014 til apríl 2015 jókst aflaverðmæti um 7% miðað við sama tímabil árið áður á landinu öllu en dróst saman á Suðurnesjum um tæp 3%. Verðmæti afla upp úr sjó á tólf mánaða tímabilinu var tæplega 150 milljarðar á landinu öllu en rúmir 23 milljarðar á Suðurnesjum.

Þessar tölur má finna á vef Hagstofunnar.