Nýjast á Local Suðurnes

DIMMA með tónleika í Gígnum

Rokkhljómsveitin DIMMA verður með tónleika í Gígnum, nýjum glæsilegum sal hjá Fish House Grindavík, fimmtudaginn 9. júní næstkomandi.

DIMMA hefur um árabil verið ein allra vinsælasta rokksveit landsins og hefur gefið út sex hljóðversplötur, fimm tónleikaplötur og átt fjölda laga sem farið hafa hátt á öldum ljósvakans.

Þá hefur sveitin einnig hlotið mikið lof fyrir tónleika sína, sem eru kraftmikið sjónarspil og orkan frá þeim lætur engan ósnortinn en DIMMA var m.a tilnefnd til bæði Hlustendaverðlaunanna og Íslensku Tónlistarverðlaunanna í ár.

Nýjasta breiðskífa DIMMU, sem ber heitið Þögn, hefur fengið frábæra dóma og viðtökur en hún fór í fyrsta sæti Tónlistans yfir mest seldu plötur landsins og varð þar með fimmta plata hljómsveitarinnar á ferlinum til að ná toppsætinu.

Gígurinn er nýr glæsilegur salur hjá FishHouse Grindavík sem hentar sérlega vel fyrir tónleika með DIMMU.

Á tónleikunum verða leikin lög af Þögn í bland við öll vinsælustu lög sveitarinnar og má því búast við heitri og sveittri rokkstemningu að hætti DIMMU.