Nýjast á Local Suðurnes

Nýráðinn aðstoðarþjálfari kvennaliðs Njarðvíkur: “#Hensonout”

Jóhannes Albert Kristbjörnsson, nýráðinn aðstoðarþjálfari kvennaliðs Njarðvíkur í körfuknattleik vill að íþróttahreyfingin hætti viðskiptum við íþróttavöruframleiðandann Henson í kjölfar þess að eigandi fyrirtækisins skrifaði meðmælabréf fyrir dæmdan kynferðisbrotamann þegar sá sótti um uppreist æru til Dómsmálaráðuneytisins.

Jóhannes Albert, sem einnig er varaþingmaður Viðreisnar, greindi frá þessu í opinni færslu á Fésbókar-síðu sinni þegar málið komst í hámæli á dögunum. Fjörugar umræður mynduðust við færslu Jóhannesar Alberts og voru skiptar skoðanir um málið.

Jóhannes tekur þó fram í umræðum við færsluna að fá íþróttafélög hafi burði til að hætta viðskiptum við Henson á þessum tímapunkti, en hægt sé að leita til annara framleiðenda í framtíðinni.

“Mjög mörg íþróttafélög eru og hafa verið í viðskiptum við Henson og hafa þau fæst burði til að henda búningasettum í massavís núna. Þau geta hins vegar leitað annað með sína búninga í framtíðinni og um það snýst þessi færsla mín.” Segir Jóhannes.

Körfuknattleiksdeildir Njarðvíkur, Grindavíkur og Keflavíkur ræddu málefni Henson sín á milli á dögunum og ákáðu að halda viðskiptum við fyrirtækið áfram að svo stöddu.