Keilir fékk ekki lögregluskólann

Mennta- og menningarmálaráðherra hyggst ganga til samninga við Háskólann á Akureyri vegna kennslu- og rannsóknarstarfsemi á sviði lögreglufræða. Þetta kemur fram á vef ráðuneytisins. Ríkiskaup auglýstu val á framkvæmdaraðila og héldu utan um matsferlið. Fjórir aðilar skiluðu inn gögnum: Háskóli Íslands í samstarfi við Keili, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst og Háskólinn í Reykjavík.
Að mati ráðherra uppfyllti Háskólinn á Akureyri mjög vel þær kröfur sem gerðar eru um gæði náms og aðbúnað til lögreglumenntunar. Þá telur ráðherra aðstæður við HA til þess fallnar að gera nemendum af landinu öllu kleift að leggja stund á lögreglunám.