Nýjast á Local Suðurnes

Grindavíkurbær tapar dómsmáli – Prókúrulaus reyndi að kaupa skólastofur

Grindavíkurbær tapaði á dögunum nokkuð sérkennilegu dómsmáli gegn innflutningsfyrirtæki í Reykjanesbæ. Málið snérist um tilboð sem gert var í nafni fyrirtækisins í tvær færanlegar skólastofur í eigu sveitarfélagsins, en sá aðili sem gerði tilboðið hafði hvorki umboð né prókúruumboð til að skuldbinda félagið.

Viðkomandi aðili sagðist fyrir dómi, hvar hann hafði stöðu vitnis, hafa ætlað að kaupa skólastofurnar í nafni fyrirtækisins og hafi vænst þess að það yrði samþykkt af stjórn félagsins. Fyrirtækið greiddi eina milljón króna inn á viðskiptin, sem í heild hljóðuðu upp á 3,6 milljónir króna og kvað vitnið framkvæmdastjóra stefnda hafa millifært fjárhæðina að beiðni vitnisins en það hafi átt þá fjárhæð inni hjá hinu stefnda fyrirtæki.

Í gögnum málsins kemur þó fram að aðal ástæða þess að kaupin voru ekki kláruð og færanlegu skólastofurnar sóttar af kaupanda var lélegt ástand þeirra, en að mati stefnda var ekki mögulegt að flytja þær vegna ástands þeirra. Fyrirtækið var þó sýknað af kröfum Grindavíkurbæjar þar sem sá aðili sem gerði tilboðið hafði hvorki umboð né prókúru og gat því ekki skuldbundið stefnda, með því að undirrita kauptilboð í nafni stefnda.