Nýjast á Local Suðurnes

Jóhann Friðrik: “Hef alltaf lagt mikið uppúr góðum samskiptum við fólk”

Jóhann Friðrik Friðriksson skipar fjórða sæti á lista Framsóknarflokks fyrir kosningar til Alþingis, sem fram fara í dag. Jóhann, sem starfar sem fagstjóri sálfélagslegra þátta hjá Vinnueftirlitinu, er með BA og Mastersgráðu í heilsuvísindum.

Jóhann segist í spjalli við Suðurnes.net ávallt hafa lagt mikið upp úr góðum samskiptum við fólk og því hafi legið nokkuð beint við að starfa í stjórnmálaflokki, en hann hóf ungur að starfa fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Jóhann sagði skilið við flokkinn í kjölfar hrunsins og hóf að starfa með Viðreisn, en eftir að hafa áttað sig á að hafa átt fátt sameiginlegt með þeim flokki, varð Framsóknarflokkurinn fyrir valinu.

“Ég á góða félaga og vini í öllum flokkum og hef alltaf lagt mikið uppúr góðum samskiptum við fólk. Ég hóf afskipti mín af stjórnmálum mjög ungur og starfaði með Sjálfstæðisflokknum en sagði skilið við flokkinn í hruninu þegar ég fann að ég átti ekki samleið með stefnu hans lengur.” Sagði Jóhann Friðrik í spjalli við Suðurnes.net

“Ég hef alltaf heillast af framsæknum stjórnmálum og eftir nám og dvöl erlendis tók það mig töluverðan tíma að finna fjölina. Ég tók þátt í fyrstu fundunum sem síðar leiddu til stofnunar á Viðreisnar en áttaði mig fljótlega á því að þar átti ég ekki samleið.

Ég hafði farið á fundi með Frosta Sigurjónssyni og Willum Þór á sínum tíma í Framsóknarhúsinu hér í Reykjanesbæ og síðar átt góð samskipti við þingmenn flokksins vegna lýðheilsustefnu sem mótuð var undir þeirra stjórn á sínum tíma. Mér var svo boðið af formanni flokksins, Sigurði Inga, að taka þátt í mótun og vinnu við menntastefnu flokksins og þannig hófst mitt stjórnmálastarf innan Framsóknarflokksins. Hjá Framsókn er gríðarlega öflugur og faglegur hópur af fólki sem ég á mikla samleið með. Flokkurinn hefur gengið í gegnum töluverða endurnýjun og hefur hafnað öfgafullri hugmyndafræði, tekið á leyndarhyggju og komið samheldinn og öflugur frá miklum mótbyr. Það er gaman að vinna með góðu og heiðarlegu fólki bæði hér í Reykjanesbæ og í kjördæminu.” Sagði Jóhann Friðrik.

Jóhann varð að lokum við beiðni um að svara nokkrum spurningum um sjálfan sig, en svörin má finna hér fyrir neðan:

Nafn: Jóhann Friðrik Friðriksson

Hjúskaparstaða og Börn: Erla Hafsteinsdóttir talmeinafræðingur, Börn: Guðrún Elfa 16 ára, Hafsteinn Orri  5 ára og Matthildur Hanna 4 ára.

Heimili: Skólavegur 38, Reykjanesbæ.

Menntun:  BA og Master í heilbrigðisvísindum

Atvinna: Fagstjóri sálfélagslegra þátta hjá Vinnueftirlitinu

 

Áhugamál: Ég hef áhuga á alltof mörgu…Körfuknattleik, stjórnmálum, lýðheilsumálum, matargerð og veiði svo eitthvað sé nefnt.

Uppáhaldsmatur og Uppáhaldsdrykkur: Elska humar – plögg; Humarsalan.is….Uppáhalds drykkur: Malt í gleri.

Uppáhaldsbók: Sjálfstætt fólk, sú saga er með því betra sem skrifað hefur verið á íslenska tungu að mínu mati.

Eitt atriði sem fólk veit almennt ekki um þig: Ég er trommari með dómararéttindi í boggia

Ertu hjátrúarfullur? Hvernig? Nei, ég myndi ekki segja það. Ég var það samt þegar ég var ungur, ég spilaði til dæmis alltaf í treyju númer 7 og átti mjög erfitt með að skila körfu í öðrum númerum. Lucky no. 7.

Hvaða persónu úr mannkynssögunni værir þú helst til í að drekka kaffi með: Það er á tæru, John F. Kennedy…hann var með eindæmum framsýnn og áhrifamikill.

Lýstu þér í fimm orðum: Jákvæður, fylginn mér, fróðleiksfús, réttsýnn og hugmyndaríkur

Ef þú mættir vera einhver annar í einn dag: Ég væri til í að vera Ingimundur Jónsson vinur minn, hann er svo góður í pílu.

Lífsmottó: Grasið er alltaf grænna þar sem það er vökvað