Nýjast á Local Suðurnes

Skötumessan: Gefa skólabörnum 12.500 máltíðir á næstu fimm árum

Árleg Skötumessa var haldin í Miðgarði í Garði síðastliðið miðvikudagskvöld, alls mættu um 400 manns á messuna og að venju voru veittir styrkir til góðgerðamála. Alls voru veittir styrkir að upphæð sjö milljónir króna að þessu sinni, en sérstakt átak var gert til að fá fyrirtæki og velunnara til samstarfs með þessum góða árangri í tilefni af 10 ára afmæli messunnar.

Stærsta styrkinn að þessu sinni fékk Velferðarsjóður Suðurnesja frá Icelandair Cargo. Ekki hafa allar fjölskyldur ráð á að kaupa skólamáltíðir fyrir börn sín. Icelandair Cargo skuldbatt sig til að gefa ákveðna fjárhæð á hverju ári næstu fimm árin svo börn frá fátækum heimilum fái að borða í skólanum. Fyrirtækið Skólamatur ákvað að gefa myndarlegan afslátt af þessum máltíðum svo hægt verður að gefa skólabörnum alls 12.500 máltíðir að verðmæti alls 4,3 milljónir á næstu fimm árum.

Björgin geðræktarstöð fékk styrk fyrir óvissuferð fyrir 50 manns, fyrirtækið Áfangar ehf. styrkti Ferðasjóð NES Íþróttafélags fatlaðra á Suðurnesjum um 400 þúsund kr. og fötluð kona fékk styrk til að fara í sumarbúðir. Fyrirtækið Dynjandi ehf. gaf tíu starfsmönnum Dósasels, sem er rekið af Þroskahjálp á Suðurnesjum, vinnufatnað. Þá fékk Hæfingarstöðin í Reykjanesbæ að gjöf gróðurhús að verðmæti ein milljón króna.

Einnig var veittur 150.000 króna styrkur til menningarverkefna í Garðinum. Fjölskylda sem er að gera upp heimili sitt eftir að það eyðilagðist í eldsvoða fékk gefins alla málningu á húsið. Fjölskylda ungs manns sem fórst nýlega í umferðarslysi var styrkt líkt og fjölskylda ungs drengs sem glímir við langvinn veikindi.

„Ég er ákaflega þakklátur þeim fyrirtækjum sem komu til liðs við okkur á tíu ára afmælinu og eins öllum þeim sem hafa staðið með okkur í gegnum árin,“ sagði Ásmundur Friðriksson, í samtali við mbl.is.