Nýjast á Local Suðurnes

Njarðvík í frí eftir stórt tap í vesturbænum

Njarðvíkingar eru úr leik eftir stórt tap gegn hittnum KR-ingum í oddaleik liðanna sem fram fór í DHL-höllinni í vesturbæ Reykjavíkur. Njarðvíkingar byrjuðu leikinn af krafti en það dró fljótlega af þeim og KR-ingar völtuðu yfir þá og fögnuðu sigri með 92 stigum gegn 64.

Fyrsti leikhluti var jafn, Njarðvíkingar komu einbeittir til leiks og hirtu fráköst bæði í vörn og sókn,  KR-ingar voru hins vegar ekki lengi að komast í takt við leikinn og höfðu náð forystu í lok fyrsta leikhluta, 22-17. KR-ingar hrukku svo í gang í öðrum leikhluta og hreinlega stungu Njarðvíkinga eftir, hittnin var líka með ólíkindum, en tæp 60% skota KR-inga rötuðu ofan í körfuna, jafnt fyrir innan sem utan þriggja stiga línuna. Staðan í leikhléi 47-33.

Njarðvíkingar hafa lent í þessari stöðu áður og það var ekkert sérstaklega farið að fara um stuðningsmenn liðsins, en hittni KR-inga hélt afram að gera Njarðvíkingum lífið leitt og forskotið jókst smátt og smátt. Njarðvíkingar áttu hreinlega ekkert svar við góðum leik KR-inga. Að loknum þriðja leikhluta var forskot KR-inga komið í 31 stig, 76-45 og úrslitin í raun ráðin.

Lokahleiklutinn var formsatriði, ungir og efnilegir leikmenn beggja liða fengu að spreyta sig og var til að mynda allt byrjunarlið Njarðvíkinga komið af velli þegar um þrjár mínútur voru til leiksloka.

Jeremy Atkins­son var at­kvæðamest­ur í liði Njarðvíkinga með 22 stig og Haukur Helgi kom næstur með 13 stig en hann fann sig engan veginn í kvöld og hitti aðeins úr fimm af 15 skotum sínum.