Nýjast á Local Suðurnes

Seinkanir hjá Icelandair vegna álags í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Mjög langar biðraðir mynduðust í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í fyrradag og seinka þurfti öllum morgunflugum Icelandair. Forsvarsmenn Isavia búast við miklu álagi í júlí og biðja farþega um að mæta tímanlega í flug, þetta kemur fram á vefnum túristi.is.

Unnið er að því að stækka farþegasvæði Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar en Guðni Sigurðsson talsmaður Isavia segir í samtali við túrista.is það vera mikið verk sem taki tíma.

„Ljóst er að júlímánuður verður erfiður hjá okkur og það má búast við flöskuhálsum á álagstímum á morgnana og seinnipartinn. Við hvetjum farþega til að koma snemma og við munum í sumar byrja innritun fyrr til þess að dreifa álaginu á þessum álagstoppum betur.”

Farþegar sem eiga að fljúga frá landinu milli klukkan sex og átta á morgnana, frá þrjú til fimm seinnipartinn eða um miðnætti eru hvattir til að koma út á völl að minnsta kosti þremur tímum fyrir brottför.