Nýjast á Local Suðurnes

Nokkrar bílveltur á Suðurnesjum – Einn fluttur á Landspítala

Mynd: Lögraglan á Suðurnesjum / Myndin tengist fréttinni ekki beint

Bílvelta varð við gatnamót Hringbrautar og Heiðarbergs í morgun. Tveir voru í bifreiðinni, sem endaði eina sex metra utan vegar á hvolfi. Þeir sluppu án meiðsla en bifreiðin reyndist vera ótryggð og voru skráningarmerki því tekin af henni.

Í gær missti svo ökumaður stjórn á bifreið sinni á Reykjanesbraut með þeim afleiðingum að hún endaði utan vegar og fór tvær veltur. Hún virðist hafa numið staðar 76 metrum frá því að ökumaður missti stjórn á henni. Hann komst sjálfur út úr henni en kvaðst finna mikið til í hálsi og baki þegar lögreglumenn á Suðurnesjum ræddu við hann á vettvangi. Hann var fluttur á Landspítala í Fossvogi.

Þá ók ökumaður bifreið sinni út af Grindavíkurvegi og leikur grunur á að ölvun hafi komið þar við sögu.

Bílvelta varð enn fremur þegar ökumaður ók út af Grindavíkurvegi. Kenndi hann hálku um óhappið og slapp án teljandi meiðsla.

Nokkuð var svo um afstungur þegar ekið var utan í kyrrstæðar og mannlausar biðreiðir og tjónvaldar létu sig hverfa af vettvangi.