Nýjast á Local Suðurnes

Opnun sumarsýninga í Duus safnahúsum

Sumardagskrá Duus Safnahúsa hefst með opnun fjögurra nýrra sýninga næstkomandi föstudag. Ókeypis aðgangur verður í  söfn Rerykjanesbæjar  í júní, júlí og ágúst.

Sýningar Byggðasafns Reykjanesbæjar

Hlustað á hafið

Sýningin fjallar um náin tengsl sjómanna árabátatímans við hafið umhverfis Reykjanesið. Íbúar þessa svæðis áttu allt sitt undir hafinu og því sem sjórinn gaf. Undir yfirborðinu var gullkistan sem sjómenn sóttu lífsviðurværið í, án auðugra fiskimiða nærri landi hefði svæðið trauðla haldist í byggð. En sóknin á árabátum gat orðið varasöm, ekki síst þegar róið var á vetrarvertíð. Þá urðu formenn bátanna að hlusta á hafið á myrkum morgnum til að meta hvort óhætt væri að róa. Sýningunni er ætlað að veita gestum innsýn í þann heim sem forfeður okkar áttu með hafinu, sem stundum var blítt og létt en kannski oftar úfið og krafðist reglulega mannfórna. Sýningarsalur: Gryfjan.

Fólkið í kaupstaðnum

Á sýningunni gefur að líta sýnishorn af ljósmyndum í eigu Byggðasafns Reykjanesbæjar með sérstakri áherslu á ljósmyndir Heimis Stígssonar og Jóns Tómassonar. Þema sýningarinnar er fólk og mannlíf í kaupstaðnum Keflavík og nágrannabænum Njarðvík á árunum 1944 til 1994.

Sýningin er jafnframt tileinkuð nýjum ljósmyndavef Byggðasafns Reykjanesbæjar, reykjanesmyndir.is, sem verður opnaður við þetta tilefni.

Sýningar Listasafns Reykjanesbæjar

Af hug og hjarta
Haraldur Karlsson

Á sýningunni Af hug og hjarta er að finna tilraunakennd vídeóverk eftir Harald Karlsson. Frá árinu 2014 hefur Haraldur verið að vinna verk í vídeó sem byggja á segulómmyndum af heila og hann kallar einfaldlega Heili (Brain). Vísindin vita ennþá lítið um heilann, en segulómyndirnar eru hluti af vísindarannsókn sem miðar af því að öðlast betri þekkingu á starfsemi heilans og þroska hans. Í gegnum segulómyndirnar hefur Haraldur haldið í sinn eigin listræna könnunarleiðangur um myndefnið þar sem hann nýtir sér myndvinnsluforrit til að ferðast um óþekkt svæði og teikna upp mynstur, brautir og efnahvörf. Nýverið áskotnuðust honum einnig segulómyndir af hjarta sem hann notar á sama hátt og birtast í þessari sýningu með myndum af heilanum. Hluti af innsetningunni í Listasafni Reykjanesbæjar byggir einnig á óhlutbundnu myndefni sem fjallar um sama viðfangsefni en eru unnið beint í myndvinnsluforrit. Verkið er langtímaverkefni, gert í beinu framhaldi af Litla sólkerfinu (2000-2022).

Gerðið
Steingrímur Eyfjörð

Steingrímur Eyfjörð (f. 1954) hóf að starfa í myndlist á áttunda áratug síðustu aldar, hann hefur unnið með fjölbreytta miðla og ólík viðfangsefni m.a. menningararfleið Íslendinga, þjóðsögur og hjátrú.

Hann var fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 2007 með verkið Lóan er komin sem samanstendur af 13 sjálfstæðum verkum og þar á meðal er Gerðið sem sýnt er á Listasafni Reykjanesbæjar.

Gerðið er innsetning og lýsir ferli listamannsins þar sem hann nær tengslum við huldumann í gegnum miðil. Verkið er smíðað eftir leiðbeiningum huldumannsins og kaupir Steingrímur einnig af honum huldukind til þess að sýna í gerðinu. Áhorfandinn stendur því gagnvart nútíma álfasögu þar sem hann þarf að ákveða hverju hann vilji trúa.