Nýjast á Local Suðurnes

Yfir 20% hækkun á fasteignaverði í Reykjanesbæ og Grindavík á fimm mánuðum

Innri - Njarðvík

Mikill uppgangur í ferðaþjónustu, uppbygging stóriðju í Helguvík og aukin umsvif á Kefavíkurflugvelli eru taldar vera helstu ástæður þess að fasteignaverð hefur rokið upp í Reykjanesbæ og í Grindavík á síðustu fimm mánuðum. Fasteignaverð í þessum tveimur sveitarfélögum hefur hækkað einna mest á landsvísu, að Akraneskaupstað frátöldum, eða um 20% frá því í ágúst.

Það er greiningardeild Arionbanka sem greinir frá þessu, en tölurnar finna þeir út með því að skoða fasteignaauglýsingar í fjölmiðlum, þar sem tölur frá hinu opinbera eiga það til að berast seint. Rétt er að taka fram að greiningardeildin kannaði verð á þriggja til fjögurra herbergja íbúðum í fjölmörgum sveitarfélögum á þessu tímabili. Þá kemur fram í gögnum greiningardeildarinnar að lítið framboð af húsnæði á höfuðborgarsvæðinu kunni að eiga þátt í þessari miklu hækkun.