Nýjast á Local Suðurnes

Einar Árni tekur við Njarðvík – “Hugur í okkur Njarðvíkingum”

Einar Árni Jóhannsson hefur tekið við þjálfun karlaliðs Njarðvíkur í körfuknattleik, en samið var við Einar í dag til þriggja ára. Einar tekur við starfinu af Daníel Guðna Guðmundssyni, sem stýrt hefur liðinu undanfarin tvö tímabil.

Einar hefur síðustu þrjú tímabil stýrt Þór Þorlákshöfn en hann er kunnur öllum hnútum í Njaðvíkunum og gerði Njarðvíkinga að Íslandsmeisturum árið 2006.

,,Við fögnum því innilega að fá jafn reyndan þjálfara og Einar við stýrið en það er hugur í okkur Njarðvíkingum sem fyrr. Í Einari þekkjum við sterkan þjálfara sem hefur um árabil gert góða hluti í Ljónagryfjunni,“ sagði Friðrik Pétur Ragnarsson formaður KKD UMFN við samningagerðina í dag.

Einar Árni kvaðst spenntur fyrir komandi verkefnum í Ljónagryfjunni. ,,Ég er gríðarlega ánægður og spenntur að vera kominn heim enda þekki ég vel til í Ljónagryfjunni. Síðustu ár hjá Þór Þorlákshöfn hafa verið mjög lærdómsrík og skemmtileg en nú tekur við nýr kafli og ég er sannfærður um að spennandi tímar eru í vændum í öflugu umhverfi í Njarðvík og get bara ekki beðið eftir því að fara af stað.“ Aðspurður um breytingarnar á leikmannahópi Njarðvíkur sagði Einar að sú vinna fari af stað strax næstu daga.