Nýjast á Local Suðurnes

Saklaus hugmynd Suðurnesjamanns varð að “óstöðvandi skrímsli”

Mynd: Facebook / ARG Viðburðir

Forsvarsmenn Þjóð­há­tíðarinnar í Eyjum árið 2020 tilkynntu í gær um fyrstu listamennina sem samið hefur verið við um að koma fram á hátíðinni en það verða Emm­sjé Gauti og Alda­móta­tón­leikarnir. Aldamótatónleikarnir eru hugarsmíð Suðurnesjamannsins Atla Rúnars, sem er hvað þekktastur undir nafninu Atli plötusnúður, en hann greinir frá því á Fésbókarsíðu sinni að hugmyndin hafi í upphafi verið saklaus en sé nú orðin að algjöru skrímsli.

Aldamótatónleikarnir skarta mörgum af þekktustu tónlistarmönnum landsins sem tróðu upp um aldarmótin síðustu, þar á meðal eru Gunni Óla, kenndur við hljómseitina Skítamóral, Hreimur úr Landi og sonum, Magni, Birgitta Hauk­dal og Beggi úr Sól­dögg. Uppselt hefur verið á nær alla þá Aldamótatónleika sem haldnir hafa verið víða um land undanfarið ár.

Atli, sem rekur viðburðafyrirtækið ARG viðburði, sagði í samtali við DV.is fyrir fyrstu tónleikana sem haldnir voru að vöntun væri á svona tónleikum í flóruna.

„Okkur hjá ARG viðburðum fannst vanta svona tónleika. Það er orðið til kynslóð sem sótti sveitaböllin grimmt, en nennir ekkert endilega að fara lengur á sveitaböll, fyrir utan að sú dýrategund virðist hægt og rólega vera að deyja út.” Sagði Atli Rúnar.

Auk Aldamótatónleikanna stendur Atli Rúnar fyrir fjölda vinsælla viðburða og má þar nefna tónleikaröð með hljómsveitinni Mannakorn, Grease tónleikum og 90´s nostalgían.  Þá hefur Atli staðið fyrir vinsælum viðburðum á Suðurnesjum, til að mynda hið vinsæla Striksball sem tileinkað er skemmtistaðnum Strikinu sem starfræktur var í Keflavík á níunda áratug síðustu aldar.

Næstu Aldamótatónleikar verða haldnir í Háskólabíó dagana 17. og 18. apríl næstkomandi en hér má nálgast miða á þá. Mannakorn mun koma fram á sama stað þann 22. apríl og er hægt að tryggja sér miða á þá tónleika hér.