Nýjast á Local Suðurnes

Makríllinn er mættur og Garðbúar fjölmenna á bryggjuna með veiðistangir að vopni

Makríllinn svamlar nú um Faxaflóa í stórum torfum, ef eitthvað er að marka frétt Vísis.is um málið, sem segir Garðbúa safnast saman á bryggjunni í stórum stíl með veiðistangir að vopni.

 Vefmiðillinn hefur eftir Guðmundi Inga Ragnarssyni,  að fiskurinn sé „stór, fallegur og fullur af ljósátu”  og sjást „dökkir flekkir á sjónum allt inn í Keflavík.” Þar segir einnig að um sé að ræða fleiri hundruð tonn og hafa bæjarbúarnir á bryggjunni ekki farið varhluta af makrílnum sem er töluvert fyrr á ferðinni en undanfarin ár.

Guðmundur áætlar að fiskurinn láti nú sjá sig rúmri viku fyrr en í fyrra þegar makrílinn óð Garð- og Leirusjó í kringum 8. júlí. Árið þar áður hafi hann verið á ferðinni þann 20. sama mánaðar.