Nýjast á Local Suðurnes

Vegleg dagskrá á þrettándagleði í Reykjanesbæ

Árleg þrettándagleði í Reykjanesbæ fer fram þann 6. janúar næstkomandi.  Áður en dagskrá hefst, frá kl. 17-18, verður boðið upp á skemmtilega luktarsmiðju í Myllubakkaskóla. Fólk er beðið um að koma með krukku með sér að heiman sem hægt verður að breyta í fallega lukt til að taka með sér í blysförina frá Myllubakkaskóla að hátíðarsvæði á Hafnargötu. Allt efni og ljós (fyrir utan krukkuna sjálfa) fæst á staðnum. Verð fyrir efni er kr. 300 og greiðist með peningum á staðnum. Gengið er inn um inngang við Suðurtún. Allir velkomnir.

threttandagledi reykjanesbaer

Frá þrettándagleði í Reykjanesbæ – Mynd: Reykjanesbær

Klukkan 18:00 verður gengið í fylgd álfakóngs og drottningar, álfa, púka og barna með luktir frá Myllubakkaskóla að hátíðarsvæði við Hafnargötu 8. Á hátíðarsvæði mun Grýla gamla ásamt fleiri fjölskyldumeðlimum stýra dagskrá á sviði þar sem álfakóngur og –drottning ásamt álfakór syngja söngva tengda þrettándanum. Grýla tekur svo lagið með börnununum og púkar og fleiri kynjaverur verða á sveimi á svæðinu.

Þrettándabrennan verður á sínum stað Bakkalág ef veður leyfir og Reykjanesbær býður gestum að ylja sér á heitu kakói og piparkökum.

Jólin verða svo kvödd með flugeldasýningu að hætti Björgunarsveitarinnar Suðurnes sem reikna má með að verði stórfengleg að vanda.

Karlakór Keflavíkur, Kvennakór Suðurnesja, Leikfélag Keflavíkur, Skátafélagið Heiðabúar, Júdódeild UMFN, Björgunarsveitin Suðurnes og Jólahljómsveit og Trommusveit Tónlistarskólans taka þátt í dagskránni.

Bílastæði eru við Ægisgötu og Ráðhús, Tjarnargötu 12.