Nýjast á Local Suðurnes

Aksturskostnaður þingmanna – Nokkrir kaffibollar Ásmundar kosta þjóðina 110.000 krónur

Mynd: Gys.is

Á síðasta ári endurgreiddi þingið 22,2 milljónir króna til þingmanna Suðurkjördæmis vegna aksturs eigin bíla, en heildarendurgreiðslur þingsins vegna aksturs allra þingmanna námu tæplega 35 milljónum króna.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er talinn aka langmest allra þingmanna, en hann hefur neitað að gefa upp þær upphæðir sem hann fær endurgreiddar vegna aksturs og Alþingi hefur einnig ítrekað neitað því að greina greiðslur til einstakra þingmanna niður og því fæst ekki frekari sundurliðun.

Vikan 1. – 7. nóvember, var frekar róleg í ferðalögum um kjördæmið hjá Ásmundi, en hann heimsótti þó kjósendur í Vík í Mýrdal, á Hellu og á Hvolfsvelli.

Ásmundur heimsótti þessi þrjú sveitarfélög á þremur mismunandi dögum, en samtals er um að ræða 996 kílómetra akstur, sé miðað við að Ásmundur hafa farið frá heimili sínu í Reykjanesbæ. Ferðakostnaðarnefnd ákveður akstursgjald í aksturssamningum ríkisstarfsmanna og ríkisstofnana og er hæsta kílómetragjaldið 110 krónur, sé miðað við það hafa ferðalög Ásmundar í síðurstu viku kostað þjóðina 109.560 krónur. Ásmundur leit við á bæjarhátíð á Hvolsvelli, fór á fund á Hellu og í heimsóknir á sveitabæi og hjúkrunarheimili í Vík í Mýrdal, þar sem þingmaðurinn drakk kaffibolla á meðan “skrafað var um stjórnarmyndun og lífeyrissjóði,” segir þingmaðurinn á Fésbókarsíðu sinni.

Sé miðað við Facebook-síðu Ásmundar var vikan 1. – 7. nóvember frekar róleg í ferðalögum vegna starfsins, en sé miðað við umrædda viku og gert ráð fyrir að þingmaðurinn aki um þúsund kílómetra starfsins vegna á viku fær hann tæplega 6 milljónir króna á ári endurgreiddar vegna aksturs, en þar sem vikan var frekar róleg má gera ráð fyrir að sú upphæð sé umtalsvert hærri.