Nýjast á Local Suðurnes

Afbrotum fækkar í Grindavík

Sviðsstjórar hjá Grindavíkurbæ ásamt bæjarstjóra áttu í vikunni góðan fund með lögreglustjóranum á Suðurnesjum, en um árlegan yfirlitsfund er að ræða þar sem farið er yfir tölfræði síðasta árs og rætt um áherslur og áætlanir á nýju ári. Afbrotum í umdæminu fer fækkandi frá ári til árs, en árið 2010 voru framin 452 afbrot í Grindavík á móti 195 árið 2015.

Eitt stingur þó í stúf í Grindavík samanborið við umdæmið í heild og það er aukin tíðni umferðaróhappa. Grindvíkingar hafa löngum vakið athygli á því, en talað fyrir daufum eyrum, að tími sé kominn á endurbætur á Grindavíkurvegi sem og Norðurljósavegi. Þessir vegir voru einfaldlega ekki hannaðir fyrir þá miklu umferð sem um þá fer.

Þá kom fra á fundinum að það er einnig stefna lögreglunnar að halda úti sem fyrr öflugri og sýnilegri löggæslu á Suðurnesjum, innan þeirra fjárheimilda sem embættinu eru settar. Aukin áhersla verður sett í fíkniefnamál, þ.e. að hafa uppi á þeim sem eru að selja og framleiða ólögleg fíkniefni.