Nýjast á Local Suðurnes

Jómfrúin opnar á KEF

SSP í Noregi, hluti af alþjóðlega fyrirtækinu SSP Group, átti hagkvæmasta tilboðið í útboði á rekstri tveggja veitingastaða sem opnaðir verða á Keflavíkurflugvelli í febrúar á næsta ári. Fyrirtækið mun reka veitingastað í samstarfi við íslenska fyrirtækið Jómfrúnna og hefja rekstur á bístró-stað undir nafninu Elda þar sem Snorri Victor Gylfason, kokkur á Vox, mun sjá um þróun og hönnun á öllum réttum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Isavia.

Í tilkynningunni segir að um sé að ræða tvö ný veitingarými á annarri hæð í norðurbyggingu. Elda verði nútímalegur og notalegur staður sem bjóði upp á hraða þjónustu, heita og kalda rétti og henti fjölbreyttum hópi farþega á öllum tímum sólahringsins. Jómfrúin verði afslappaður veitingastaður sem bjóði sinn fjölbreytta matseðil, blandaðan íslenskri og skandinavískri matargerð. Viðskiptavinir beggja veitingastaða muni eiga völ á að panta beint að borðinu í gegnum sérstakan QR kóða, til þess að forðast biðraðir.

„Það er okkur heiður og við erum stolt af því að hafa verið valin til samstarfs við Isavia um rekstur tveggja veitingarýma á Keflavíkurflugvelli,“ segir Bente Brevik, framkvæmdastjóri SSP. „Við hlökkum til að opna veitingastaðina Jómfrúin og Elda í norðurbyggingu flugstöðvarinnar snemma á næsta ári með samstarfsaðilum okkar á Íslandi, þeim Jakobi Einari Jakobssyni og hans teymi og Snorra Victori Gylfasyni.“

„Við hjá Jómfrúnni erum mjög ánægð með þetta samstarf við SSP, þau hafa mikla reynslu af rekstri á alþjóðaflugvöllum á Norðurlöndum og víðar. Okkar markmið er að fanga sömu stemningu og ríkt hefur á Jómfrúnni í Lækjagötu í áratugi, við hlökkum mikið til að taka þátt í framtíðarþróun Keflavíkurflugvallar,“ segir Jakob Einar Jakobsson, eigandi Jómfrúarinnar.