Nýjast á Local Suðurnes

Síðasta kvöldmáltíðin flutt á Skírdag – Sviðslistaverk í formi gönguferðar

Síðasta kvöldmáltíðin verður flutt á Skírdag, fimmtudaginn 13. apríl 2017, á fjórum stöðum á landinu, Raufarhöfn, Bolungarvík, Höfn í Hornafirði og í Reykjanesbæ, þar sem verkið er sett upp af Leikfélagi Keflavíkur.

Í tilkynningu frá aðstandendum verksins kemur  fram að Síðasta kvöldmáltíðin sé einskonar ratleikur hugleiðinga, eða uppllifunarganga, sem býður gestum að sjá sína eigin sögu og eiga fund við sjálfan sig og sín eigin gildi í lífinu.

Hver ganga er kortlögð í kringum sögu og andrúmsloft hvers staðar fyrir sig og unnin upp úr viðtölum við íbúa á hverjum stað. Þá er framkvæmd verkefnisins byggð á nánu samstarfi við íbúa í hverju byggðarlagi. Ókeypis aðgangur er að sýningunni, en mikilvægt er að fólk skrái þátttöku, en það er hægt að gera með því að hafa samband við Leikfélag Keflavíkur í síma 421 2540.

Listrænir stjórnendur eru Hallur Ingólfsson, Rebekka A. Ingimundardóttir og Steinunn Knútsdóttir.

Þá er athygli vakin á því að ganga þarf á milli staða og því gott að vera klæddur eftir veðri.