Nýjast á Local Suðurnes

Engar kvaðir á sparisjóðsstjóra varðandi útlán – Ákvarðanir tilkynntar stjórn eftir á

Geirmundur Kristinsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Keflavíkur hafði rúmar heimildir til útlána án trygginga, þannig voru engar kvaðir lagðar á sparisjóðsstjóra þegar kom að hámarki útlána. Þetta kemur fram í dómi Hérðasdóms Reykjaness, en Geirmundur var sýknaður af kröfum um umboðssvik fyrir dómnum á dögunum.

Í dómnum kemur fram að sparisjóðsstjóri hafi veitt fjögur lán, hvert að fjárhæð 1,5 milljarðar króna, sem stjórn sparisjóðsins hafi talið vera innan útlánaheimilda hans. Í reglum um lánveitingar og ábyrgðir A-sparisjóðsins frá 29. mars 2005 hafi til samræmis við þetta ekki verið settar takmarkanir á heimildir sparisjóðsstjóra til lánveitinga til viðskiptamanna sjóðsins. Í reglunum hafi ekki heldur verið greint frá því hvenær trygginga skyldi krafist eða viðmið sett varðandi slíkar tryggingar.

Í reynd hafi það verið svo að í reglunum hafi engar kvaðir verið lagðar á sparisjóðsstjóra hvað viðkom hámarki útlána, tryggingum fyrir þeim eða verkferlum. Eina skyldan sem lögð hafi verið á sparisjóðsstjóra hafi verið að tilkynna stjórn sparisjóðsins á næsta fundi eftir að ákvörðun var tekin um útlán eða ábyrgðir vegna skuldbindinga sem væru umfram 10% af eigin fé sjóðsins.

Í dómnum sem finna má á vefsíðu Héraðsdóms kemur einnig fram að kostnaður við málsvörn Geirmundar hafi numið rúmum sjö milljónum króna, sem greiddar séu af ríkissjóði.