Nýjast á Local Suðurnes

Fjöldi gististaða á Suðurnesjum margfaldast

Nýskráðum gistiheimilum og hótelum á Suðurnesjum hefur fjölgað gríðarlega undanfarin ár. Árið 2004 voru sjö gististaðir skráðir á Suðurnesjum, haustið 2013 voru þeir 35, núna eru þeir 70. Þetta kemur fram á ferðavefsíðunni túsristi.is. Útlit er fyrir frekari fjölgun á þessu ári. Hlutfallslega fjölgaði gistinóttum mest á Suðurnesjum og Vesturlandi á síðasta ári samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Þá eru ótaldar svokallaðar heimagistingar, en í lauslegri könnun sem Local Suðurnes framkvæmdi á húsnæðisleigusíðunni Airbnb.com, í september síðastliðnum kom í ljós að mikill fjöldi íbúða og herbergja á Suðurnesjum eru skráð á þessari vinsælustu húsnæðisleiguleitarvél heims.

Í vikunni kynnti Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, að í sumar myndi félag í hans eigu opna gistiheimili í tveimur blokkum á gamla varnarliðssvæðinu. Þar mun megináherslan verða lög á ferðamenn sem stoppa stutt á landinu og þá sem eru á leið í morgunflug og vilja gista í nálægð við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hótel Keflavík tilkynnti einnig í vikunni opnun á fyrsta fimm stjörnu hóteli landsins, Diamond Suites, en það opnar um miðjan maí.