Nýjast á Local Suðurnes

Fjöldi íbúða á Suðurnesjum skráðar á Airbnb.com

"Fín leið til að drýgja tekjurnar," segir aðili sem nýtir sér þjónustuna

Lausleg könnun Local Suðurnes á húsnæðisleigusíðunni Airbnb.com leiðir í ljós að rúmlega 400 íbúðir og herbergi á Suðurnesjum eru skráð á þessari vinsælustu húsnæðisleiguleitarvél heims, einhverjar íbúðir af höfuðborgarsvæðinu slæðast þó með í leitarniðurstöðunum.

Verðið fyrir nóttina er afar misjafnt, allt frá um fjögur þúsund krónum fyrir lítil herbergi eða svefnpokapláss, til flottra íbúða á góðum stað í Reykjanesbæ fyrir um 70 þúsund krónur á nóttina. Algengt ásett verð fyrir íbúð í Reykjanesbæ er um 100 til 200 evrur fyrir gistinótt, eða um 14.000 til 28.000 krónur.

Gisting í Reykjanesbæ virðist njóta töluverðra vinsælda því ef leitarniðurstöður eru þrengdar niður á ákveðnar dagsetningar fram í tímann er mun minna úrval íbúða eða herbergja í boði, eða frá um 20 íbúðum á völdum dagsetningum í september uppí um 100 á völdum dagsetningum í nóvember og allt þar á milli.

Fín leið til að drýgja tekjurnar

Það getur verið fín leið að notast við Airbnb eða sambærilegar leitarvélar til dess að drýgja tekjurnar. Ef við tökum smá dæmi um íbúð sem kostar 20.000 krónur á nóttina að leigja má sjá að miðað við 50% nýtingu á mánuði eru leigutekjurnar um 300 þúsund krónur eða töluvert hærri en fæst fyrir íbúð á almennum markaði. Dæmið er kannski ýkt og ekki margir sem ná 50% nýtingu yfir árið en þetta sýnir að möguleikarnir eru fyrir hendi með auknum straumi ferðamanna til landsins.

Local Suðurnes ræddi við nokkra aðila sem notast við þjónustu Airbnb.com til að leigja út íbúðir sínar eða herbergi og voru allir sammála um að þessi leið væri fín til að drýgja tekjurnar, auk þess sem flestir voru sammála um það að félagsskapur erlendra ferðamanna væri skemmtileg tilbreyting við heimilislífið.

“Við höfum leigt út herbergi núna í nokkra mánuði, við höfum ekki fengið mjög marga gesti en þetta hefur verið skemmtilegt. Við erum með börn á heimilinu og þau hafa haft gaman að því að umgangast og ræða við þá erlendu ferðamenn sem hafa heimsótt okkur, segir fjölskyldufaðir sem nýtir sér þjónustu Airbnb.com,” í samtali við Local Suðurnes.

Og annar bætir við að hann hafi aðeins leigt út íbúð 2-3 sinnum í mánuði um nokkura mánaða skeið og tekjurnar af því fari langt með að dekka fastan kostnað við rekstur íbúðarinnar, þó það standi ekki undir afborgunum.

innrinjardvik

Fjöldi íbúða á Suðurnesjum eru skráðar á vefsíður eins og Airbnb og það virðist vera nóg að gera

Umsagnirnar skipta miklu máli

Það er oft sagt að ánægður viðskiptavinur sé besta auglýsingin, það á svo sannarlega vel við þegar þjónustan sem húsnæðisleigusíðurnar bjóða uppá er notuð, umsagnir viðskiptavina geta skipt sköpum.

“Ég myndi segja að umsagnirnar skipti öllu máli,” segir einn af viðmælendum Local Suðurnes. “Svo eru línur í þessu, ef þú t.d. færð í upphafi góð ummæli frá þjóðverjum, þá eru verulegar líkur á því að þjóðverjar verði líklegri til þess að bóka og svo framvegis. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli.”

“Sumir hafa ekki vit á því [að biðja um ummæli], en þeir sem eru að gera þetta “rétt” og gengur best biðja alltaf um ummæli. Og “ýta” jafnvel á fólk eftir að það er farið til að fá góð ummæli – En auðvitað skiptir miklu máli að veita góða þjónustu og aðstoða fólk eftir fremsta megni til þess að fá þessi góðu ummæli.”

airbnb gardhus

Þetta garðhús er ein besta gisting á Suðurnesjum ef eitthvað er að marka ummæli á Airbnb.com

Garðhús ein besta gisting bæjarins

Séu leitarniðurstöður Airbnb.com skoðaðar aðeins nánar má sjá að 12 fermetra garðhús í Reykjanesbæ fær 5 stjörnur frá nær öllum sem hafa skrifað ummæli, en garðhúsið er með rúmlega 200 umsagnir viðskiptavina á síðunni. Nóttin í garðhúsinu kostar um 10.000 krónur (akstur til og frá flugvelli er innfalinn í verðinu) og miðað við fjölda umsagna virðist vera nóg að gera.

Þessi einkunnargjöf myndi sennilega fara langt með að tryggja þessari gistingu sæti á lista yfir bestu gististaði landsins, það má þó taka fram að lóðin sem umrætt garðhús stendur á er þakin trjám og gróðri og umhverfið mjög svo smekklegt í alla staði auk þess sem stutt er í allar nauðsynjar og gestgjafarnir ganga langt í að veita mjög góða þjónustu.