Nýjast á Local Suðurnes

Vilja flytja starfsemi Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar

Ljósmynd: Reykjanesbær.is / OZZO

Fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um að starfsemi Útlendingastofnunar verði flutt til Reykjanesbæjar. Alls starfa 86 manns hjá stofnuninni, sem staðsett er í Kópavogi.

Þingmennirnir sem leggja fram tillöguna eru Birgir Þórarinsson, Guðrún Hafsteinsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Ásmundur Friðriksson. Með þessu vilja þingmennirnir fjölga sérfræðistörfum og hlutfalli háskólamenntaðra á svæðinu og segja, í greinargerð, að hentugt væri að hafa stofnunina staðsetta í nánd við Keflavíkurflugvöll.

Í greinargerðinni segir jafnframt að þrátt fyrir að það geti verið eitthvert óhagræði fyrir núverandi starfsmenn Útlendingastofnunar að starfsemin verði flutt út fyrir höfuðborgarsvæðið, þá sé Reykjanesbær skammt frá höfuðborgarsvæðinu „og því ekki sérlega íþyngjandi fyrir starfsmenn stofnunarinnar ef hún yrði flutt til Reykjanesbæjar“.

Ennfremur segir að þar að auki búi fjöldi innflytjenda á Suðurnesjum sem nýti sér þjónustu stofnunarinnar, en um níu present íbúa bæjarins eru af erlendum uppruna. „Þá er rétt að líta til þess að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sem sækjast eftir alþjóðlegri vernd kemur til landsins í gegnum Keflavíkurflugvöll og því er væri hentugt að stofnunin væri í meiri nálægð við flugvöllinn.“