Nýjast á Local Suðurnes

Ódýrt íbúðarhúsnæði á Suðurnesjum trekkir að

Tæplega 30% fjölgun íbúa á Suðurnesjum á 10 árum

Myndin tengis fréttinni ekki beint

Ef skoðuð eru gögn frá Hagstofu Íslands um íbúaþróun á mismunandi landsvæðum má sjá jákvæða þróun undanfarin tvö ár á Suðurnesjum en íbúum í sveitarfélögum á Suðurnesjum hefur fjölgað um 3,9% á þessu tímabili en þar á eftir komu höfuðborgarsvæðið, Suðurland og Vesturland. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka um íslensk sveitarfélög.

Ef horft er á síðastliðin tíu ár kemur í ljós að mesta fjölgunin á sér stað innan áðurgreindra landsvæða, það er innan Suðurnesja, 28,7%, höfuðborgarsvæðisins, 14,7%, Suðurlands, 11,8% og Vesturlands, 7,9%.

Ódýrara húsnæði skýrir fjölgun

Þessi mikla fólksfjölgun síðastliðin tíu ár á Suðurnesjum skýrist einna helst af uppbyggingu í Innri-Njarðvík og nýrri íbúðabyggð á varnarstöðinni, erlendu vinnuafli og auknum fólksflutningum af höfuðborgarsvæðinu vegna ódýrara íbúðarhúsnæðis á Suðurnesjum.

Á landinu búa rúmlega 329.000 manns samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands og þar af rúmlega 21.000 á Suðurnesjum. Einungis níu sveitarfélög eru með fleiri en 5.000 íbúa og af þeim er Reykjavík afgerandi stærst með um 37% af heildaríbúafjölda landsins, segir í skýrslu Íslandsbanka.

Íbúðarlánasjóður á tæplega 600 íbúðir á Suðurnesjum

Í lok maí voru 761 eign í almennri sölumeðferð hjá fasteignasölum víðsvegar um landið, þar af eru 353 á Suðurnesjum. Þá voru í lok mánaðarins 207 íbúðir í leigu hjá eignasviði Íbúðalánasjóðs á Suðurnesjasvæðinu. Langflestar þeirra eru leigðar til fjölskyldna og einstaklinga sem dvöldu í eignunum þegar Íbúðalánasjóður eignaðist þær. Um 75% þeirra fullnustueigna sem bætast við eignasafn Íbúðarlánasjóðs fara í leigu á þennan hátt, segir í mánaðarskýrslu sjóðsins fyrir maímánuð sem gefin var út fyrir skömmu.

Í mánaðarskýrslunni kemur einnig fram að eignir sjóðsins eru leigðar út á markaðsverði og er miðað við sambærilegar eignir í útleigu meðal annars eftir staðsetningu, stærð og aldri.