Nýjast á Local Suðurnes

“Mikilvægt að fyrirtæki sem hafa áhrif á umhverfið vakti það vel”

Segir Gestur Pétursson forstjóri Elkem á Grundartanga

Uppbygging iðnaðarsvæðisins í Helguvík svipar að mörgu leiti til uppbyggingarinnar sem átt hefur sér stað á Grundartanga en þar eru meðal annars starfrækt álver Norðuráls og málmblendiverksmiðja Elkem. Norðurál framleiðir um 300.000 tonn af áli á ári á Grundartanga og framleiðslugeta verksmiðju Elkem er um 120.000 tonn af kísilmálmi á ári.

Til samanburðar hljóðar starfsleyfi Norðuráls í Helguvík uppá 250.000 tonn af áli á ári og kísilver United Silicon og Thorsil gera ráð fyrir framleiðslu á um 75.000 tonnum af kísilmálmi á ári samanlagt.

kisilmalm thorslil

Teikning af fyrirhugaðri verksmiðju Thorsil í Helguvík

Umhverfisstofnun sér um vöktun iðnaðarsvæða

Umhverfismálin hafa verið töluvert í umræðunni varðandi uppbygginguna sem á sér stað í Helguvík og til að mynda er undiskriftasöfnun í gangi á Suðurnesjum þar sem þess er krafist að  íbúakosning fari fram vegna breytinga á deiliskipulagi í Helguvík vegna kísilvers Thorsil.

elkem gestur

Gestur Pétursson forstjóri Elkem á Íslandi

Umhverfisstofnun sér um vöktun iðnaðarsvæða landsins en á heimasíðu stofnunarinnar má nálgast allar skýrslur sem unnar hafa verið gagnvart þeim fyrirtækjum sem stofnunin hefur eftirlit með. Breytingar sem gerðar voru á heimasíðunni árið 2011 urðu til þess að gegnsæi jókst til muna en þar má meðal annars finna eins og áður sagði allar úttektar- og rannsóknarskýrslur.

Gestur Pétursson forstjóri Elkem á Íslandi hefur reynslu af störfum Umhverfisstofnunnar:

“Með auknu gegnsæi er kominn sterkari grunnur gagnvart því trausti sem þarf að ríkja á milli hagsmunaaðila,” sagði Gestur.

“Í dag er staðan sú að hver sem er getur farið inn á laugardagskvöldi eða þriðjudagsmorgni og skoðað allt sem snýr að rekstri allra fyrirtækja sem eru með starfsleyfi útgefin af Umhverfisstofnun. Það er nauðsynlegt að vekja athygli á þessari staðreynd um gegnsæi til að fyrirbyggja að þau ágætu hjón „Þrándur í Götu og Gróa á Leiti“ leiki ekki lausum hala í allri umræðu um það samfélag sem við viljum byggja upp og búa í.”

Umhverfisvöktunaráætlun endurskoðuð árlega

Á Grundartanga er umhverfisvöktunaráætlunin endurskoðuð árlega til að tryggja að ný þekking, ný mælitækni og ábendingar hagsmunaaðila skili sér fljótt og vel inn í áætlunina.

“Sameiginleg umhverfisvöktun allra starfsleyfisskyldra aðila innan saman iðnaðarsvæðis er líklega eitt mesta heillaspor sem hefur verið tekið þegar kemur að vöktun umhverfisáhrifavalda og verndun umhverfisins,” segir Gestur.

“Með slíku fyrirkomulagi verður umfang vöktunar mun meira en jafnframt hagkvæmara. Það er mikilvægt að fyrirtæki sem hafa sannanlega áhrif á umhverfið vakti það eins vel og mögulegt er.” Sagði Gestur.

Árið 2014 voru 94 mismunandi umhverfisþættir vaktaðir og mældir á Grundartanga þar sem allir þættir með skilgreind viðmiðunarmörk reyndust undir mörkum, þar með talið áhrif á hross og búfénað.

“Það sem mætti helst bæta í núverandi ferli er að auka gegnsæi gagnvart því hver það er sem skilgreinir hvað skal vakta og hvernig eru vísindamenn / fagaðilar valdir til verksins. Þessi vöntun á gegnsæi hefur leitt það af sér að fólk heldur oft að það séu iðnfyrirtækin sjálf sem ákveði þetta allt saman, sem er langt frá öllum raunveruleika.” Sagði Gestur

Hann sagði einnig að: “Sameiginleg umhverfisvöktun starfsleyfisskyldra aðila tryggir sem sagt umfangsmeiri, faglegri og hagkvæmari vöktun umhverfinu og samfélaginu til góða.”

Allir ferlar og hráefni í Helguvík þeir sömu og á Grundartanga

grundartangi loft

Iðnaðarsvæðið á Grundartanga

Kísilverin í Helguvík munu framleiða vörur með kísilinnihaldi frá 96-99,9% á meðan Elkem á Grundartanga framleiðir vörur með kísilinnihaldi á bilinu 65-75% ásamt því að járni er bætt  við framleiðslu Elkem, að öðru leiti eru allir ferlar og hráefni nánast þau sömu.

Aðspurður um hvernig uppbyggingin á Grundartanga hafi heppnast með tillititi til umhverfismála sagði Gestur:

“Almennt séð hefur uppbygging iðnaðarsvæðisins á Grundartanga heppnast nokkuð vel. Að sjálfsögðu hafa hinir ýmsu hagsmunaaðilar stundum ekki verið sammála. Engu að síður hefur fólk tekið tillit til hvors annars og unnið ötullega gagnvart því að skapa sátt um það jafnvægi sem þarf að vera á milli nýtingu náttúruauðlinda og verndunar náttúrunnar.”