Nýjast á Local Suðurnes

Kvartanir um mengun þrátt fyrir að slökkt sé á ofni – 3500 vilja kísilver burt úr Helguvík

Verksmiðja Stakksbergs í Helguvík

Fjöldi kvartana um mengun barst Umhverfisstofnun í vikunni, þrátt fyrir að slökkt væri á ofni kísilmálmverskmiðju United Silicon í Helguvík. Slökkt var á ofninum eft­ir að starfsmaður slasaðist í vinnu­slysi þar aðfaranótt þriðju­dags.

Samkvæmt heimildum Suðurnes.net er enn slökkt á ofni verksmiðjunnar og ekki stendur til að kveikja á honum á ný fyrr en búið sé að tryggja að slys af þessu tagi end­ur­taki sig ekki.

Íbúar í Reykja­nes­bæ hafa, sem kunnugt er lýst óánægju með meng­un sem þeir segja ber­ast frá verk­smiðjunni. Hafa þeir lýst reykjar­lykt og óþæg­ind­um af henn­ar völd­um.

Um 3500 manns hafa tekið þátt í undirskriftasöfnun á vefsíðunni Change.org, þar sem þess er krafist að farið verði rækilega í saumana á þeim forsendum sem lágu til grundvallar útgáfu starfsleyfis til United Silicon og að verksmiðjan verði svipt starfsleyfi reynist upplýsingarnar rangar. Þá er þess krafist að verksmiðju Thorsil verði ekki veitt starfsleyfi þar sem fyrirtækið hafi ekki staðið skil á greiðslum til Reykjanesbæjar.