Nýjast á Local Suðurnes

Ólga innan HSS – Óánægja með stjórnunarhætti nýs forstjóra

Óanægja ríkir á meðal hluta starfsfólks Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) vegna stjórnunarhátta nýráðins forstjóra stofnunarinnar. Þannig herma heimildir Suðurnes.net að nokkrir starfsmenn, þar á meðal sérfræðingar hafi þegar sagt upp störfum vegna þessa.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skipaði Markús Ingólf Eiríksson forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í febrúar síðastliðnum, en hann er með doktorspróf í endurskoðun með áherslu á stjórnarhætti fyrirtækja og starfaði áður hjá endurskoðunarfyrirtækinu Ernst & Young. Óánægja starfsfólks snýr einna helst að ófaglegri stjórnun stofnunarinnar.

Heilbrigðisráðuneytinu er kunnugt um ágreining innan stofnunarinnar og hefur forstjóranum verið gefinn kostur á að tjá sig um málið við ráðuneytið. Samkvæmt heimildum hefur hluti starfsfólks HSS sent heilbrigðisráðherra erindi þar sem lýst er yfir vantrausti á hinn nýráðna forstjóra.

Margrét Erlendsdóttir, upplýsingarfulltrúi Heilbrigðisráðuneytisins, staðfesti að forstjóranum hafi verið gefinn kostur á að svara fyrir sig gagnvart ráðuneytinu en að frestur sem hann hefur til þess sé ekki liðinn. Hún hvorki játaði né neitaði að starfsfólk HSS hafi sent umrædda vantraustsyfirlýsingu á ráðuneytið í svari við fyrirspurn Suðurnes.net.