Nýjast á Local Suðurnes

AGC vill fá lóð Thorsil í Helguvík – Höfða mál gegn Reykjaneshöfn og Thorsil

Forsvarsmenn Atlantic Green Chemicals, AGC, hafa höfðað nýtt mál gegn Reykjaneshöfn, Thorsil og Reykjanesbæ, þar sem þess er krafist fyrirtækið fái að byggja verksmiðju á lóðinni við Berghólabraut 4 í Helguvík, lóðinni þar sem fyrirhugað er að reisa kísilverksmiðju Thorsil, fái fyrirtækið til þess fjármögnun.

Þetta kemur fram á vef Viðskiptablaðsins, en þar segir einnig að fyrirtækið hafi höfðað samskonar mál á vormánuðum í fyrra og í október sama ár komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að kröfur AGC væru vanreifaðar og vísaði málinu frá dómi. AGC kærði frávísunarúrskurðinn til Hæstaréttar, sem í desember í fyrra staðfesti niðurstöðu héraðsdóms.

„Okkar krafa er fyrst og fremst sú að það sé viðurkennt að AGC fái lóðina Berghólabraut 4,” segir Jón Jónsson, lögmaður AGC, í samtali við Viðskiptablaðið. „Þetta var lóð sem Reykjaneshöfn lýsti sig tilbúna til að úthluta til AGC árið 2011.”

AGC hefur hug á að reisa lífalkóhól- og glýkólverksmiðju á lóðinni og hyggst nýta afgangsvarmaorku frá kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík til sinnar framleiðslu.