Nýjast á Local Suðurnes

Jafnt hjá Keflavík í lokaleiknum – Grindavík skoraði mest allra liða í deildarkeppni

Keflvíkingar og Leiknir Reykjavík skildu jöfn, 0-0, í lokaleik sínum í Inkasso-deildinni í knattspyrnu, sem fram fór á heimavelli þeirra síðarnefndu í gær. Keflvíkingar voru sterkari aðilinn í leiknum, en náðu ekki að setja mark að þessu sinni. Þetta var ellefta jafntefli Keflvíkinga í deildinni í sumar, en liðið endaði keppni í þriðja sæti.

Grindvíkingar lögðu Hauka að velli á Grindavíkurvelli í lokaleik sínum, 3-2. Alexander Veigar Þórarinsson jafnaði leikinn fyrir Grindavík á 34. mínútu, eftir að Haukar höfðu komist yfir eftir um stundarfjórðungs leik. Hákon Ólafsson og Gunnar Þorsteinsson komu Grindvíkingum í 3-1, áður en Haukar minnkuðu muninn undir lok leiksins.

Grindvíkingar, sem þegar voru búnir að tryggja sér sæti í Pepsí-deildinni að ári, skoruðu mest allra liða í deildunum frá úrvalsdeild til og með þriðjudeildar, en þeir skoruðu hveorki meira né minna en 50 mörk í sumar. Alexander Veigar skoraði 14 af þessum mörkum.