Nýjast á Local Suðurnes

Umhverfisstofnun hafnar skýringum United Silicon

Verksmiðja Stakksbergs í Helguvík

Sigrún Ágústsdóttir sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun segir fullvíst að arsenmengun, sem mælist í nágrenni verksmiðju United Silicon í Helguvík, komi frá verksmiðjunni og hafnar stofnunin skýringum fyrirtækisins á að mengunina megi rekja til annars en verksmiðjunnar.

Fram kom í tilkynningu frá fyrirtækinu að framleiðsla hafi ekki verið komin í gang þegar mælingar sýndu aukna arsenmengun og því ætti að leita skýringa á menguninni víðar en frá henni.

Þetta kom fram í sjónvarpsfréttum RÚV. Sigrún sagði í samtali við RÚV að mengun hafi tekið að aukast um það leyti sem verksmiðjan hafi verið prufukeyrð. Þessu hafnaði talsmaður United Silicon í viðtali við RÚV og sagði enga framleiðslu hafa verið í gangi við prufukeyrslu verksmiðjunnar, og því óhugsandi að aukin arsenmengun væri af þeirra völdum á þeim tíma.