Fulltrúar verkalýðsfélaga hafa ekki fengið leyfi til að skoða vinnuaðstæður í kísilveri
Kristján Gunnarsson formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur segist ekki hafa fengið leyfi til að skoða vinnuaðstæður í kísilveri United Silicon í Helguvík, en margir starfsmenn kísilversins hafa leitað til verkalýðsfélagsins og lýst áhyggjum af öryggismálum.
Kristján segir í samtali við fréttastofu RÚV að kvartað hafi verið undan því að fallvarnir, þegar unnið er í mikilli hæð, væru ekki sem skyldi. Einnig hafi verið kvartað undan neyðaraðstöðu, þar sem veita á fyrstu hjálp komi upp alvarleg slys. Þá hafi margir hafi kvartað undan mengun og svonefndum aftöppunarpalli.
„Og svo voru menn að kvarta yfir því að það var verið að skikka þá til að vinna á tækjum sem menn höfðu ekki réttindi til að vinna á. – Og hverju kvörtuðu menn undan á aftöppunarpallinum? Menn voru óöruggir. Mönnum fannst stutt upp í rafleiðara og menn töldu lífi sínu ógnað þar,“ segir Kristján.