Nýjast á Local Suðurnes

Siggeir stefnir á þing – “Þeir sem nýta auðlindirnar eiga að borga sanngjarnt gjald”

Siggeir F. Ævarsson, upplýsinga- og skjalafulltrúi hjá Grindavíkurbæ, stefnir á annað sæti á lista Pírata í Suðurkjördæmi fyrir komandi kosningar til Alþingis. Siggeir segist í kynningu á kosningavef flokksins hafa verið hliðarlínu-Pírati í mörg ár og eindreginn stuðningsmaður flokksins, en að nú sé kominn tími til að láta verkin tala.

“Áherslumál mín eru einföld. Mér finnst að þeir sem nýta okkar gjöfulu auðlindir eigi að borga sanngjarnt gjald fyrir svo að allir Íslendingar geti notið þess. Á þetta jafnt við um orkuna okkar, fiskistofnana, náttúruna og mannauðinn. Ef okkur tekst að dreifa arðinum jafnt verður eftirleikurinn auðveldur.” Segir Siggeir.

Þá er mennta- og heilbrigðiskerfið Siggeiri hugleikið, en það vill hann efla til muna þar sem við séum ein ríkasta þjóð heims.

“Það er eitthvað bogið við það að hver atvinnugreinin á fætur annarri eigi hér metár á metár ofan meðan að ekki tekst að manna lækna- og kennslustöður. Við erum ein ríkasta þjóð í heimi og við þurfum að sýna það í verki fyrir alla, en ekki bara suma.” Segir Siggeir.

Píratar halda prófkjör fyrir Suðurkjördæmi vegna væntanlegra kosninga til Alþingis og er hægt að kynna sér baráttumál Siggeirs hér. Þá er mögulegt að skella atkvæði á kappann hér hafi menn til þess rétt. Píratar náðu einum manni á þing í Suðurkjördæmi í síðustu kosningum, en það er Smári McCarthy.