250 hermenn og fjórtán orrustuþotur í loftrýmisgæslu
Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland hefst á næstu dögum með komu flugsveitar bandaríska flughersins. Allt að 250 liðsmenn flughersins taka þátt í verkefninu auk starfsmanna frá stjórnstöð Atlantshafsbandalagsins í Uedem í Þýskalandi og eistneska flughernum.
Flugsveitin kemur til landsins frá Bretlandi með allt að fjórtán F15-orrustuþotur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.
Strangari ráðstafanir eru gerðar vegna komu sveitarinnar en almennt gildir um ferðamenn sem koma til landsins því auk landamæraskimana fara allir í tveggja vikna vinnusóttkví (B-sóttkví) að lokinni fyrstu skimun, segir í tilkynningunni.
Flugsveitin kemur til með að hafa aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Gert er ráð fyrir að verkefninu ljúki fyrir lok mánaðarins.