Nýjast á Local Suðurnes

Neytendastofa sektar Hótel Keflavík vegna umsagna á ferðavefsíðu

Umsagnirnar voru skrifaðar á vef Expedia.com

Neytendastofa hefur sektað Hótel Keflavík um 250 þúsund fyrir neikvæðar umsagnir sem starfsmaður hótelsins skrifaði á vefsíðuna Expedia.com, síðastliðið sumar, um keppinautinn Flughótel Keflavík.

Neytendastofu barst erindi frá Flughótel Keflavík þar sem kvartað var vegna neikvæðra umsagna sem skrifuð voru um hótelið á bókunarvefsíðu. Taldi Flughótel Keflavík að starfsmaður annars hótels, Hótel Keflavík, hefði ritað ummælin í tengslum við bókanir fyrir ferðamenn.

Í ákvörðun Neytendastofu kom fram að umsagnirnar stöfuðu frá netfangi á vegum Hótel Keflavík. Umsagnir á bókunarvefnum væru einungis ætlaðar viðskiptavinum fyrirtækja en ekki keppinautum og væri ætlað að endurspegla reynslu viðskiptavina af þjónustunni.

Neytendastofa taldi að um væri að ræða óréttmæta og villandi viðskiptahætti sem væru til þess fallnir að hafa áhrif á eftirspurn þjónustu keppinautar. Neytendastofa taldi nauðsynlegt að banna háttsemina og var 250.000 kr. stjórnvaldssekt lögð á fyrirtækið.

Ákvörðunina má nálgast hér.